LÍF Á LANDI

Aðflutningur lífvera

 

Sjóleiðin

Á fyrsta vori í sögu Surtseyjar varð strax vart við að fræ og aðra plöntuhluta hafði rekið upp á nýmyndaða ströndina. Sum fræjanna gátu spírað, sem benti til þess, að fræ sem bárust sjóleiðina til eyjarinnar gætu orðið upphaf landnámsplantna. Vorið eftir fannst fyrsta háplantan, fjörukál, á hinu nýmyndaða búsvæði og síðan hafa nokkrar tegundir plantna í Surtsey vaxið upp af fræjum, sem borist hafa sjóleiðis og spírað í eða upp af rekaröndinni við háfjöruborð. Fjörukálinu fylgdu fleiri strandtegundir, eins og fjöruarfi, melgresi og blálilja sem bárust með sjó til Surtseyjar á fyrstu árunum. Þessar tegundir hafa fremur stórgerð fræ sem fljóta og þola saltan sjó. Líklegt er að uppruna þeirra megi rekja til sandfjara í Heimaey eða á suðurströndinni þar sem þær vaxa. Heimaey er í 18 km fjarlægð frá Surtsey en upp á Landeyjasand eru 32 km.

Fræ geta einnig borist til Surtseyjar áföst allskonar reka. Til dæmis fundust eitt sinn margar pétursbuddur eða skötuegg rekin upp á strönd eyjarinnar og á þeim hékk fjöldi fræja. Lifandi plöntuhlutar og smádýr hafa einnig borist með grashnausum og rótarflækjum frá nærliggjandi eyjum.

Vindur

Fræ og aldin með svifhárum hafa oft fundist í Surtsey, þegar vindur stendur af landi seinni hluta sumars. Á þann hátt hafa aldin fífu og krossfífils borist til eyjarinnar, þó þær tegundir hafi ekki náð þar rótfestu. Grasvíðir, loðvíðir og gulvíðir hafa hins vegar numið land í Surtsey og sömuleiðis túnfífill og skarifífill, en fræ þessara tegunda geta borist fyrir vindum um langan veg og allar líkur eru á að þannig hafi þær komist til eyjarinnar.

Byrkningar, mosar, fléttur, sveppir og þörungar fjölga sér með örsmáum gróum og æxlihlutum, sem þyrlast upp með loftstraumum og dreifast með vindi. Líklegt er að flestar tegundir af þessum hópum sem fundist hafa í Surtsey hafi komið eftir þessari leið. Meðal þeirra eru klóelfting, burknarnir tófugras og köldugras, mosinn melagambri og fléttan hraunbreiskja.

Fuglar

Það er vel þekkt að fulgar flytja fræ milli staða. Sumar tegundir éta ber eða aldin með fræjum sem þeir bera með sér og drita á nýjum stað. Einnig geta fræ loðað við fugla eða slæðst ofan í þá þegar þeir éta bráð. Sömuleiðis bera fuglar að hreiðurefni, sem gjarnan er plöntukyns, og flytja fræ á þann hátt.

Margt bendir til að fuglar hafi verið drjúgir við að flytja fræ til Surtseyjar. Á fyrstu árum í sögu eyjarinnar voru sérstakar rannsóknir gerðar á innihaldi meltingarvegar farfugla, sem lenda í Surtsey eftir flug yfir Atlantshafið frá meginlandi Evrópu. Vakti það athygli, að fræ fannst í meltingarvegi snjótittlinga, sem benti til fjardreifingar fræs með þessum fuglum. Skarfakál nam snemma land í Surtsey og fannst fyrst þar á setstað þar sem máfar vöndu komur sínar. Fléttan fuglaglæða (Xanthoria candelaria) fannst fyrst 1972 á setstað fugla sem myndaðist umhverfis vatnsker sem sett höfðu verið upp í tilraunaskyni fáum árum áður. Þessi flétta er áburðarsækin og er algeng hvarvetna þar sem fuglar sitja og drita.

Eftir að þétt máfabyggð tók að myndast í Surtsey barst fjöldi nýrra háplöntutegunda til eyjarinnar og er líklegt að flestar þeirra hafi borist með máfunum eða öðrum fuglum sem hafa haft viðkomu í varpinu. Meðal þeirra eru tegundirnar skarfakál, krækilyng, brennisóley, vallarsveifgras, beringspuntur og njóli.