Frumherjarnir

LÍF Í SJÓ OG FJÖRU

Með fyrstu landnemum voru kísilþörungar sem fundust í fjörunni í ágúst 1964.

Aðflutningsleiðir sjávardýra til Surtseyjar eru margvíslegar. Þörungar hafa sviflæg gró og mörg sjávardýr hafa sviflægar lirfur, sem berast um með hafstraumum. Slíkar lífverur eiga hægt um vik að dreifast víða. Sjávardýr, sem fæða lifandi afkvæmi sem þegar hafa einkenni foreldranna, berast fæst með straumum og þurfa því að synda eða skríða á nýja staði. Slíkar lífverur eiga óhægt um vik að nema nýtt svæði. Þau sjávardýr með botnlæg lirfustig, sem lifðu á botninum, þar sem gos hófst og í næsta nágrenni, nutu nálægðarinnar við hið nýja “land” og höfðu forskot á aðrar botnlífverur. Þau gátu sest að þegar gosið rénaði og askan hætti að kaffæra þau. Svo er ekki loku fyrir það skotið, að fuglar hafi borið gró og lirfur sjávarlífvera í fiðri sínu, því flestir mávar og vaðfuglar sækja í fjöruna.