LÍF
Á LANDI
Lágplöntur
í Surtsey
Fyrsti gróður
við gufuútstreymi
Hentug skilyrði
fyrir lágplöntur á landi voru í fyrstu aðeins
umhverfis gufuaugu, þar sem útstreymi kaldrar eða heitrar
gufu hélt vikri og hraunklöppum stöðugt rökum.
Fyrstu
mosarnir, bólmosi (Funaria hygrometrica) og silfurhnokki
(Bryum argenteum) fundust við slík skilyrði árið
1967, og strax árið eftir sáust sex tegundir til viðbótar.
Þessir fyrstu mosar voru einkum á rökum vikri við
gufuútstreymi, eða í sprungum og niðurföllum
í hrauninu. Níturbindandi blágrænir þörungar
(Anabaena variabilis, Nostoc spp.) voru þá þegar
komnir á vettvang við gufuaugum, og virtist einkum sá
fyrrnefndi vaxa í nánum tengslum við forkím
bólmosans. Um svipað leyti greindust allmargar tegundir grænþörunga
og kísilþörunga í þeirri grænu
skán sem myndaðist á rökum vikrinum. Eina fléttan
sem gat vaxið við slík gufuútstreymi var deiglugrotta
(Trapelia coarctata). Hún var orðin mjög útbreidd
við vestari gíginn árið 1970, og hefur án
efa verið komin þar nokkru fyrr. Hún var þó
bundin við berar klappir, en gat ekki vaxið á vikri.
Landnám
í hrauninu
Árið
1970 varð vart við fyrsta vísi að landnámi
í berum hraunum þar sem gufuútstreymis gætti
ekki. Það samfélag þurfti lengri tíma
til að þroskast, og tegundirnar sem mynduðu það
uxu mun hægar. Það ár fundust flétturnar
hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum) og skeljaskóf
(Placopsis gelida), og mosinn hraungambri (Racomitrium lanuginosum).
Melagambri
(Racomitrium ericoides) hafði fundizt árið áður,
og fléttan drísilbreyskja (Stereocaulon capitellatum)
og mosinn vörtukragi (Schistidium strictum) bættust
í þetta samfélag 1971. Þá voru í
raun komnir á vettvang allir aðallandnemar nýrra hrauna
á Íslandi. Hin jafna dreifing allra þessara tegunda
í alla kima hraunsins þar sem skilyrði voru fyrir hendi,
sýnir að dreifing þeirra hlaut að gerast með
loftstraumum. Þessar tegundir höfðu það fram
yfir fyrstu landnemana við gufuaugun, að þær gátu
allar vaxið á beru hrauni og voru óháðar
rakanum frá gufuútstreymisopum, en þurftu á
móti mun lengri tíma til að vaxa. Flétturnar
þrjár höfðu allar blágræna, níturbindandi
Nostoc-þörunga í þjónustu sinni
auk grænþörunga. Einnig hafði verið sýnt
fram á, að safntegundin Nostoc muscorum hafði
þá þegar borizt um alla eyna enda myndar hún
afar létt dvalagró sem eru hluti af flóru loftstraumanna.
Næstu árin
fór þessum hraungróðri vel fram, en áberandi
var hversu hann þroskaðist hraðar í dældum
þar sem meiri raki var heldur en uppi á hraunbungum. Einnig
gekk hann mun hraðar fyrir sig í nýjasta apalhrauninu
austan til á eynni, heldur en á helluhrauninu vestar.
Þótt landnám hraungróðursins færi
vel af stað, átti hann síðar afar erfitt uppdráttar
vegna stormviðra og sandblásturs. Í vestari gígnum
var hins vegar gott hlé fyrir slíkum veðrum, og þar
náðu flétturnar snemma mestum þroska, og þar
varð mosaþemba hraungambrans fljótlega þéttari
og þykkari en nokkurs staðar annars staðar. Hún
náði þar að yfirgnæfa hinnar tegundirnar
á nokkrum svæðum og mynda mosaþembu líka
og þekkt er frá öðrum hraunum á Suðurlandi.
Þar höfðu einnig fyrstu engjaskófirnar af ættkvíslinni
Peltigera náð góðum þroska árið
1990.
Varplöndin
Þáttaskil
urðu í landnámi mosa og fléttna eftir að
varpið fór verulega af stað eftir 1985, og jarðvegur
tók að myndast. Þá námu land ýmsar
jarðvegsfléttur, bæði álfabikar (Cladonia
chlorophaea), mókrókar (Cladonia furcata),
strandkrókar (Cladonia rangiformis) og móbrydda
(Pannaria pezizoides). Einnig eru að byrja að koma í
þessi gróðurlendi mosar sem gjarnan einkenna graslendi
eða móa eins og móasigð (Sanionia uncinata)
og brekkulokkur (Brachythecium salebrosum). Í þessum
jarðvegi þroskuðust einnig hattsveppir, og var t.d. smávaxinn
hattsveppur, sortunefla (Omphalina rustica), orðinn mjög
útbreiddur í smáflagblettum á varpsvæðunum
og umhverfis þau árið 1990.
Mosar og fléttur
Vitað er um
53 tegundir af mosum sem örugglega vaxa í Surtsey í
dag, og fjölgaði þeim mjög hratt eftir 1970. Fleiri
tegundir hafa verið skráðar þar og hugsanlega numið
land tímabundið en ekki náð fótfestu. Lítið
átak hefur verið í söfnun mosa á síðari
áratugum. Mosar voru fljótari á vettvang en fléttur,
væntanlega af því að þeir gátu nýtt
sér rakan vikur við gufuútstreymi og víðar,
og vaxa hraðar. Aðeins ein flétta (deiglugrotta) gat
keppt við þá, en aðeins á beru hrauni. Vitað
er um 45 tegundir af fléttum sem safnað hefur verið í
Surtsey, en eflaust er heildarfjöldi þeirra mun meiri, því
mikið af efni frá allmörgum árum bíður
enn ógreint. Fléttum fjölgaði hægar en
mosum, og voru tegundir þeirra aðeins um 12 árið
1973.
Allar fyrstu flétturnar
sem námu land í beru hrauni í Surtsey mynda þríbýli,
þ.e. sveppur þeirra hefur bæði grænþörunga
og níturbindandi bláþörunga í þjónustu
sinni. Tvær tegundir sem síðar komu, ljóskríma
og fuglaglæða, voru sérlega tengdar hrauntoppum og
setstöðum fugla. Sú síðarnefnda var í
fyrstu mjög staðbundin á setstöðum fugla, og
hefur nær örugglega borizt með fótum þeirra
til eyjarinnar. Fuglaglæðan vex aðeins á áburðarríkum
stöðum þar sem fuglar sitja.
Fjöruskófir
sem hvarvetna eru algengar á sjávarklettum við strendur
Íslands hafa ekki enn fundist í Surtsey. Ágangur
sjávar er svo mikill, að engir strandklettar fá að
standa óáreittir nægilega mörg ár til
að þær geti náð fótfestu og þroskast.
Sveppir
Smásæir
sveppir námu strax land í Surtsey, þar sem lífræn
efni var að finna, svo sem í rekanum í fjörunum
og víðar. Slíkir sveppir sjást ekki undir venjulegum
kringumstæðum með berum augum nema þá sem
mygla, en koma fram við einangrun og ræktun úr sýnum
sem safnað er. Gró þeirra flestra er að staðaldri
hluti af flóru andrúmsloftsins og berast auðveldlega
með því þangað sem æti er að finna.
Sumir
sveppir verða hins vegar sýnilegir tímabundið
vegna myndunar stærri sveppaldina, eins og t.d. asksveppir sem
mynda disk- eða skálarlaga askhirzlur. Slíkir sveppir
hafa einstöku sinnum sést í Surtsey þar sem
lífræn efni eru til staðar, svo sem fiskleifar með
beinum sem bornar eru upp í hraunið af fuglum, eða við
lík fugla. Árið 1994 fannst t.d. mjög sérhæfur
sveppur sem eingöngu nærist á keratíni, þ.e.
hárum, nöglum, hornum eða fjöðrum dýra.
Þessi sveppur hefur verið nefndur fjaðrasveppur (Onygena
cervina), og fannst í Surtsey á fjaðraleifum í
fuglsælu undir hrafnshreiðri við vestari gíginn.
Kólfsveppir
mynda margir hattlaga sveppaldin. Fyrsti hattsveppurinn fannst 1978
og var hann af ættkvíslinni Omphalina, tegund sem
myndar sambýli við grænþörunga, eins konar
fléttu. Þal þessarar fléttu er grænt
og vex á beru hrauninu, og upp af því vex hatturinn.
Mest áberandi í Surtsey er annar sveppur af sömu
ættkvísl sem ekki myndar sambýli, sortunefla (Omphalina
rustica). Hann vex einkum á flagkenndum jarðvegi í
varplandinu eða í nágrenni þess.
Skoðið
myndasýningu um lágplöntur í Surtsey
(höf. Hörður
Kristinsson - hkris@nett.is)
-síðast uppfært
01-May-2007