Myndun móbergs

Basaltgler Surtseyjargjóskunnar

Basaltgler Surtseyjargjóskunnar ummyndast auðveldlega, en ummyndunarhúðin kallast palagónít (mógler). Breytingin veldur því að gjóskukornin límast saman í hart og þétt berg, móberg. Fyrsti votturinn af móbergi á yfirborði fannst í nóvember 1969, og hafði það myndast innan jarðhitasvæðisins við 60°-70°C á u.þ.b. tveimur og hálfu ári. Síðan hefur verið fylgst grannt með móbergsmynduninni á yfirborði, en einnig hafa verið gerðar rannsóknir á borkjarnanum frá 1979.

Myndun móbergs

Ummyndun Basaltsglers Surtseyjargjóskunnar er aðallega háð hita vatnsins í berginu. Við 100°C og þar fyrir ofan hefur Surtseyjargjóskan ummyndast í móberg á u.þ.b. einu ári eða jafnvel nokkrum mánuðum. Þetta er miklu hraðari ummyndun en nokkurn hafði órað fyrir. Við lægri hita dregur úr hraða ummyndunarinnar, við t.d. 40°-50°C hefur þessi ummyndun tekið um 4-8 ár. Nú er svo komið að mestur hluti gjóskunnar ofansjávar er orðinn að hörðu móbergi. Líklegt er, að veruleg ummyndun hafi einnig orðið neðansjávar.

Þegar basaltglerið ummyndast í palagónít verða mikil og flókin efnaskipti. Katjónir losna úr glerinu, en í staðinn tekur glerið í sig vatn og járnið í glerinu ildast. Katjónirnar, einkum Si, Al, Ca, Na og Mg, geta síðan myndað holufyllingar í berginu, og alls hafa fundist tíu tegundir nýmyndaðra steinda í móberginu í Surtsey. Algengastar eru analsím, phillipsít, tóbermórít, smektít og anhydrít.

Surtseyjareldar hafa leitt til betri skilnings á því hvernig móbergsfjöllin urðu til á ísöld. Rannsóknir sem fram hafa farið á ummyndun gjóskunnar hafa gefið mikilvægar upplýsingar um myndun móbergs og má að þessu leyti líkja Surtsey við tröllaukna tilraunastofu. Nýjasti þátturinn í þessum rannsóknum er fólginn í athugun á örverum í berginu. Ótvíræðar niðurstöður sýna, að vissar tegundir baktería leysa upp basaltgler gjóskunnar og flýta þannig fyrir palagónítmynduninni.