LÍF Á LANDI

Fuglalífið í Surtsey

Surtsey var ekki fyrr risin úr sæ, þegar fyrstu fuglar tylltu sér þar niður. Síðan hafa sést um 90 tegundir fugla í eða við eyna. Sumir koma í ætisleit frá nálægum varpstöðvum. Aðrir eru viðkomugestir á ferð milli varpstöðva annars staðar á Íslandi eða norðlægari slóðum og vetrarheimkynna í Evrópu eða Afríku. Skipulegar fuglarannsóknir sem fram fóru 1966-1971 beindust einkum að viðkomugestum, þ. á m. þýðingu þeirra sem frædreifendum fyrir landnám gróðurs. Nokkrir mjög sjaldséðir flækingsfuglar hafa fundist í eynni, t.d. eini relluhegrinn sem fundist hefur hér á landi, en sú tegund verpur í sunnanverðri Evrópu.

Fyrstu fuglarnir hófu að verpa í Surtsey þremur árum eftir að gosi lauk, eða árið 1970. Þá fundust tvö hreiður teistu og eitt fýlshreiður. Síðan hafa smám saman fleiri tegundir bæst í hóp varpfugla. Næstur nam svartbakur land árið 1974, rita og kría 1975, silfurmáfur 1981, sílamáfur um 1985, hvítmáfur 1993, snjótittlingur 1996, grágæs og maríuerla 2001, þúfutittlingur 2002 og lundi 2004. Raunar fékkst ekki fullvissa fyrir varpi maríuerlu og þúfutittlings fyrr en sumarið 2003, og grágæs varp e.t.v. fyrst sumarið 1999. Lundar virðast hafa reynt að krafsa sér holur sumarið 2001 og 2003 benti atferli þeirra eindregið til þess að þeir ættu hreiður, þótt yrði ekki staðfest. Þannig hafa 13 tegundir fugla verið skráðir varpfuglar í Surtsey til og með árinu 2004. Tólf þeirra virðast vera orðnir árvissir varpfuglar en kríuhreiður hefur ekki fundist frá 1978. Til viðbótar hafa hrafnar oft byggt sér laup án þess nokkrum sinnum að verpa, fyrst árið 1986.

Sumarið 1990 var gerð heildarkönnun á fjölda og útbreiðslu varpfugla. Varptegundir voru sex, fýll algengastur, um 120 hreiður en þau hafa verið eitthvað fleiri því ekki sást alls staðar í björgin. Sílamáfspör voru um 120, 35 svartbakspör, 25 pör silfurmáfs, um 15 teistupör og 4 pör af ritum. Heildartalning var endurtekin sumarið 2003, en það ár voru varptegundirnar orðnar ellefu. Sem fyrr var fýll algengastur, hafði fjölgað langmest, eða 350-400 hreiður. Næstur var sílamáfur 150-200 varppör, rita um 130, svartbakur um 70, þá teista og silfurmáfur af hvorri tegund 35-40 pör. Snjótittlingum hafði fjölgað uppí 10 varppör, af hvítmáfum voru 4-5 pör og af grágæs og þúfutittlingi voru tvö pör hvorri tegund. Stakt maríuerlupar rak lestina sem sjaldgæfasti varpfuglinn. Þá var eitt blandað par hvítmáfs og silfurmáfs til staðar 2003.

Hvaða varptegundir nema næst land í Surtsey?

Strandtittlingur sást yfir hásumarið 2002 og er hann hugsanlegur varpfugl á næstu árum. Tjaldur og sandlóa eru ennfremur líklegir landnemar, auk þess sem kría gæti átt til að hefja varp að nýju. Leitað hefur verið að varpi sjó- og stormsvölu án árangurs, en þær tegundir verpa í nærliggjandi Vestmannaeyjum.

Samfélög fugla eru mynduð af tegundum með mismunandi lifnaðarhætti og ræðst samsetningin af þeim skilyrðum sem staðhættir bjóða uppá. Í Surtsey urpu til að byrja með aðeins tegundir sem sækja æti til sjávar og var samfélagsgerðin einvörðungu mynduð af sjófuglum sumarið 1990. Um áratug síðar var kominn nægilega samfelldur gróður og smádýralíf til þess að landfuglar gætu orpið. Þannig virðast snjótittlingar, sem eru fræ- og skordýraætur, grágæsir grasbítir, og maríuerlur og þúfutittlingar, sem lifa á skordýrum, hafa fest sig í sessi sem varpfuglar. Hrafnar eru ræningjar sem lifa á eggjum og fuglum en eru einnig hræætur. Þeir geta framfleytt sér í eynni tímabundið, en fæðuframboð virðist enn vera of takmarkað til þess þeir nái að verpa og koma ungum á legg. Máfavarpið ætti þó að geta séð fyrir nægri fæðu (eggjum, ungum, hræjum) en máfarnar sem verpa í Surtsey eru stórir fuglar, harðgerðir og fjöldi þeirra mikill, svo þeir eiga eflaust auðvelt með að gera hrafna brottræka..

Varp fugla er greinilega afgerandi fyrir myndun jarðvegs og framvindu gróður- og smádýrasamfélaga í Surtsey, einkarlega með því að bera næringarefni úr sjó upp á land. Þetta er einkum áberandi í aðal máfabyggðinni í hrauninu suðvestur af Surti, þar sem samfelldur gróður hefur myndast á þó nokkru svæði. Vísir að þessu máfavarpi var þegar kominn sumarið 1984..

Því miður féllu skipulegar fuglaathuganir niður í Surtsey í mörg ár. Mikilvægast er að dreifing sjófuglabyggða sé kortlögð og stærð varpstofna metin með skipulögðum og reglubundnum talningum í framtíðinni, t.d. annað hvert ár. Slíkar athuganir auðvelda að meta þátt fugla í myndun gróður- og dýrasamfélaga í samanburði við önnur gögn.

Búast má við að nýjar eða sjaldséðar fuglategundir skjóti upp kollinum á Surtsey hvenær sem er. Mikilvægt er að slíkum athugunum sé haldið til haga og því er undirritaður þakklátur fyrir upplýsingar frá þeim sem heimsækja eyna, og ekki síst um nýjar varptegundir.