LÍF Á LANDI

Háplöntur

 

Hvernig er fylgst með gróðrinum?

Frá upphafi rannsókna í Surtsey var fylgst með hverjum nýjum einstaklingi háplantna sem fannst og vaxtarstaður hans skráður inn á kort af eynni. Merkihæll var reistur við hverja nýja plöntu sem fékk ákveðna kennitölu. Síðan var vöxtur plantnanna mældur og blómgun þeirra og fræmyndun skráð. Þetta var hægt að gera á meðan einstaklingar voru fáir en þegar plöntur fóru að fella fræ í Surtsey og fjölga sér ört var ekki hægt að merkja hvern einstakling og fylgja honum eftir. Þess í stað voru settir niður fastir reitir í eynni þar sem gerðar eru mælingar á þekju og tíðni plantna og framvindu gróðurs með reglulegu árabili. Í reitunum er einnig fylgst með breytingum á jarðvegi og smádýralífi. Auk þess er á hverju sumri farið um alla eyna til að leita að nýjum landnemum og skrá viðgang tegunda sem ekki vaxa innan föstu reitanna. Þannig hefur fengist góð mynd af landnámi háplantna í Surtsey og fjölgun tegunda þar.

Strandplöntur voru fyrstu landnemarnir

Flutningur lífvera til Surtseyjar er miklum tilviljunum háður og mikla erfiðleika þarf að yfirstíga áður en landnám tekst. Því eitt er að geta náð landi á eyðiey, en annað og meira er að lifa af við það harðbýli, sem ördautt land hefur uppá að bjóða og ná að fjölga sér og mynda smám saman samfélög. Fyrstu tvo áratugina voru sandar og hraun í Surtsey mjög ófrjó og jarðvegsmyndun skammt á veg komin. Fáar tegundir eru aðlagaðar slíkum skilyrðum og geta vaxið og fjölgað sér við þau. Strandplöntur sem vaxa í sandfjörum og foksandi eru aðlagaðar snauðum jarðvegi og þola erfið skilyrði. Slíkar plöntur voru fyrstu landnemar af háplöntum í Surtsey og einkenndu gróður þar fyrstu áratugina ásamt tegundum af mosum og fléttum sem fljótt varð vart í eynni. Þetta fyrsta tímabil í sögu gróðurs í eynni einkenndist því af tegundum sem voru aðlagaðar flutningi til eyjarinnar með sjó eða vindi og gátu vaxið þar við erfið skilyrði.

Fyrsta tegund háplantna fannst í Surtsey árið 1965 og var það fjörukál. Það fannst þar einnig árið eftir ásamt melgresi. Árið 1967 bættust blálilja og fjöruarfi í hópinn og síðla sumars blómstraði fjörukál þar, fyrsta plöntutegundin sem náði þeim þroska í Surtsey. Þessi fyrstu ár lifðu engar háplöntur af í Surtsey, þær grófust undir sand eða vetrarbrimið skolaði þeim burt.

Fjöruarfi þraukaði, fyrstur háplantna, í Surtsey veturinn 1968-1969 og frá því dafnaði hann vel. Það tók fjöruarfaplöntur aðeins fáein ár að ná þroska til að blómstra og bera fræ, fyrsta fræfall varð árið 1971. Þá urðu þáttaskil í útbreiðslu fjöruarfans og tók hann að breiðast um alla eyna þar. Fjöruarfi er nú langalgengasta og útbreiddasta háplöntutegundin í Surtsey og vex allsstaðar þar sem einhvern vikur og sand er að finna. Plönturnar skipta líklega milljónum og eru þær stærstu orðnar að þúfulaga breiðum sem eru nokkrir fermetrar að stærð. Fjöruarfinn hefur miklar trefjarætur sem ná langt niður í sandinn og út fyrir yfirborðshluta plantnanna. Þannig getur hann nýtt næringarefni af stóru svæði sér til vaxtar.

Melgresi og bláilja voru lengur en fjöruarfinn að blómstra og fella fræ í Surtsey og urðu þær því seinni til að auka útbreiðslu sína og mynda stofna. Á árunum 1977 – 1979 tóku þessar tegundir að fella fræ og breiðast út um sanda og vikra. Meiri þróttur var í melgresinu og er það nú ein algengasta tegundin í eynni og myndar sumsstaðar myndarlega melhóla, sem skreyttir eru fjöruarfa og einstaka bláililju. Þannig hefur myndast í Surtsey samfélag strandplantna, sem líkist talsvert gróðri í sandfjörum uppi á fastalandi. Fjörukál og hrímblaðka finnast stöku sinnum við lágströndina á norðurhluta Surtseyjar, en þær hafa ekki náð að mynda stöðuga stofna í eynni. Þetta eru einærar strandtegundir sem gera meiri kröfur til jarðvegsskilyrða en fjöruarfi, melgresi og blálilja.

Segja má að lítið hafi þá gerst í landnámi og framvindu gróðurs á árabilinu 1975 – 1985 eða frá þeim tíma sem strandplönturnar námu land á fyrstu árunum og tóku að breiðast út og mynda stofna í eynni (línurit).

Nýtt landnám fylgir auknu máfavarpi í Surtsey

Fuglavarp hófst í Surtsey árið 1970 er fýll og teista tóku að verpa þar. Árið 1974 bættist svartbakur við, rita árið 1975 og silfurmáfur árið 1981. Fuglavarpið var þó mjög strjált framan af og áhrif þess á gróður lítil. Árið 1986 fannst sílamáfur í fyrsta sinn verpandi í Surtsey og var þá tekin að myndast lítil máfabyggð í hrauninu á suðurhluta eyjarinnar þar sem voru um 10 hreiður sílamáfa og silfurmáfa. Mikil fjölgun varð í varpinu næstu árin og myndaðist þétt máfabyggð sem fór stækkandi með hverju ári. Árið 1990 voru varppör orðin nær 200 og var þar mest um sílamáf en einnig talsvert af silfurmáf og svartbak.

Þessari sprengingu í máfavarpi í Surtsey eftir 1986 fylgdi ný bylgja í landnámi háplantna og framvindu gróðurs. Rofin var sú stöðnun sem ríkt hafði um árabil. Fjöldi nýrra tegunda tók að nema land og fundust flestar þeirra fyrst í máfavarpinu. Líklegt er að margar þeirra hafi borist með máfunum til eyjarinnar. Milli áranna 1985 og 1995 fjölgaði tegundum háplantna í Surtsey úr 21 í 43, en frá þeim tíma hefur heldur hægt á fjölguninni. Sumarið 2003 fundust 3 nýjar tegundir háplantna í Surtsey og þar með höfðu 60 tegundir fundist í eynni frá árinu 1965. Af þessum 60 tegundum voru 53 með lifandi einstaklinga í eynni 2003 og sýnir það hversu afkoma tegunda hefur batnað með auknu fuglavarpi (línurit). Um þriðjungur háplantna sem fundist hafa í Surtsey eru grös og aðrar grasleitar tegundir.

Í máfavarpinu fjölgaði ekki aðeins tegundum, heldur þétti gróður sig vegna áburðaráhrifa frá fuglunum. Á fáum árum breyttust svartir vikrar og hraun í gróið gras- og blómlendi í elsta hluta varpsins. Varpsvæðið á suðurhluta eyjarinnar er nú orðið nálægt 10 hektörum að stærð. Það hefur verið fylgst náið með framvindu gróðurs innan og utan máfavarpsins í föstum mælireitum frá árinu 1990. Í reitum utan varpsins hafa breytingar verið hægar, markverðast er að vart hefur orðið við melategundirnar melablóm, holurt og geldingahnapp sem eru teknar að breiðast út í eynni. Árið 2002 fundust utan varpsins 1 – 5 plöntutegundir innan 100 m2 reits og var gróðurþekja í þeim flestum langt innan við 20%. Innan varpsins voru hins vegar allt upp í 10 tegundir í hverjum reit og í sumum þeirra var land orðið algróið. Þetta sýnir hve mikil áhrif fuglinn hefur haft á framvindu með áburði og aðflutningi fræs.

Á sendnum svæðum innan varpsins eru nú fjöruarfi, melgresi, varpasveifgras, vallarsveifgras, haugarfi, vegarfi og baldursbrá mest áberandi í gróðri, en í hrauninu er mest um varpafitjung, skarfakál og skammkrækil. Á nokkrum stöðum finnst túnvingull sem hefur myndað einsleitar breiður er stækka ár frá ári. Minna þær á grassvörð af túnvingli sem víða er ríkjandi í fuglabyggðum í úteyjum Vestmannaeyja. Mælingar á jarðvegi hafa sýnt að frjósemi hefur aukist mikið innan varpsins og uppskera gróðurs er þar sumsstaðar orðin svipuð og í gamalgrónu graslendi.

Friggjargras og gulmaðra fundust í fyrsta sinn í Surtsey sumarið 2003 og voru báðar tegundirnar í gróskumiklum gróðri í máfavarpinu. Þetta er dæmi um tegundir sem aldrei eru frumherjar á nýju landi heldur nema land þar sem gróður hefur þróast um nokkurt skeið. Sama er að segja um nokkrar tegundir graslendismosa sem einnig eru teknar að nema land í máfavarpinu í Surtsey. Staðfestir þetta að gróðurframvinda er þar komin af frumstigi.

Grasvíðir fannst í Surtsey árið 1995 og var hann fyrstur víðitegunda til að nema þar land. Af honum hafa fundist nokkrir einstaklingar, en einnig hafa á undanförnum árum fundist þar bæði gulvíðir og loðvíðir. Víðiplönturnar hafa fundist bæði utan og innan varpsins. Líklegt er að fræ af öllum þessum tegundum hafi borist miklu fyrr til Surtseyjar fyrir vindum, en vaxtarskilyrði ekki verið nægilega góð til uppvaxtar fyrr en á síðasta áratug. Að öllum líkindum stafar það af aukinni frjósemi og stöðugleika jarðvegs sem fuglalífið hefur stuðlað að.

Framtíðarþróun gróðurs í Surtsey

Fjöldi háplantna í Surtsey er orðinn talsvert meiri en í öðrum úteyjum Vestamannaeyja. Í Bjarnarey eru flestar tegundir eða 30 en fæstar í Þrídröngum aðeins 2. Í Heimaey sjálfri vaxa um 150 tegundir háplantna. Reikna má með að tegundum haldi áfram að fjölga nokkuð í Surtsey næstu áratugina en ósennilegt er að þær nái nokkurn tíman hundraðinu. Í framtíðinni mun Surtsey rofna meir og líkjast æ meir nágrönnum sínum Geirfuglaskeri og Súlnaskeri. Búsvæðum í Surtsey mun því fækka og tegundum einnig. Gróðurinn mun taka á sig líka mynd og í öðrum fuglabyggðum eyjanna sem einkennist af grósku og tegundafæð.