Friðun Surtseyjar

Friðun

Vegna þeirra vísindarannsókna er fara fram í Surtsey var eyjan upphaflega friðlýst árið 1965. Þessi friðlýsing var endurnýjuð árið 1974 með skírskotun til nýrra laga um náttúruvernd. Í lok janúar 2006 var friðlýsingin enn endurnýjuð.

Nýja friðlýsingin nær ekki aðeins til Surtseyjar sjálfrar, sem er 1,4 ferkílómetrar, eins og fyrri friðlýsing, heldur allrar eldstöðvarinnar. Friðlýsingin nær því nú einnig til neðansjávargíganna Jólnis, Syrtlings og Surtlu og hafsvæðis umhverfis eyjuna, alls um 65,6 ferkílómetra svæðis. Markmiðið með friðlýsingunni er að tryggja að þróun eyjarinnar verði eftir lögmálum náttúrunnar í samræmi við 1. gr. laga um náttúruvernd. Tilgangurinn er að tryggt verði að landnám plantna og dýra, framvinda lífríkis og mótun jarðmyndana verði með sem eðlilegustum hætti og truflun af völdum manna sem minnst. Friðlýsingin byggir meðal annars á því að öll eldstöðin hefur hátt vísinda- og náttúruverndargildi á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða.

Um friðlandið gilda þessar reglur.

Óheimilt er að fara í land í Surtsey eða kafa við eyna nema til rannsókna og verkefna þeim tengdum og þá með skriflegu leyfi Umhverfisstofnunar. Siglingar í friðlandinu umhverfis Surtsey eru heimilar.

Óheimilt er að spilla gróðri, trufla dýralíf og hrófla við jarðmyndunum og öðrum náttúruminjum í friðlandinu.

Óheimilt er að flytja í eyna lifandi dýr, plöntur, fræ eða plöntuhluta og aðrar lífverur. Jafnframt er óheimilt að flytja í eyna jarðefni og jarðveg.

Mannvirkjagerð, jarðrask, efnistaka og aðrar breytingar á landi og hafsbotni innan friðlandsins eru óheimilar nema til komi leyfi Umhverfisstofnunar og sveitarstjórnar Vestmannaeyjabæjar að fenginni umsögn Surtseyjarfélagsins.

Óheimilt er að urða sorp eða skilja það eftir í eynni eða innan friðlandsmarka.

Veiðar með veiðarfærum sem dregin eru eftir botni svo sem botnvörpu, dragnót og plóg eru óheimilar í friðlandinu.

Notkun skotvopna er bönnuð í friðlandinu, bæði á landi og sjó.

Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.