Rof eyjarinnar

Rof

Við Vestmannaeyjar er mjög vindasamt og öldurót getur orðið mikið. Sem dæmi má nefna að í aftakaveðrinu 8.-9. janúar 1990 mældist meðalölduhæð allt að 14 metrar suðaustur af Surtsey, en það svarar til þess að stærstu öldur hafi orðið um 20 metrar á hæð. Brimrof er því geysimikið í Surtsey. Jafnvel meðan á gosum stóð voru strandlínur eyjarinnar stöðugt að breytast. Eftir 1967 hefur brimið sorfið stórar spildur af eynni þótt töluvert hafi dregið úr rofhraðanum. Fyrstu árin fóru 3-20 hektarar af eynni ár hvert, en á síðustu árum að jafnaði um 1 hektari á ári.

Rof og setmyndun

Það er tvennt sem orðið hefur Surtsey til bjargar, hraunin sem runnu 1964-1965 og 1966-1967, og hörðnun gjóskunnar í móberg. Hraunin hafa verndað lausa gjóskuna að sunnan og austan, en tanginn að norðan. Að vestan var gjóskan óvarin og þar var mikið rof uns komið var að hörðum móbergskjarnanum. Nú eru þarna móbergshamrar allt að 120 m á hæð.

Hraunin hafa einnig sorfist mjög hratt af briminu. Þegar að er gætt eru hraunin mjög sprungin og gjallkennd millilög draga úr fyrirstöðunni. Mest hefur farið suðvestan af hrauninu. Þar hefur brotnað niður allt að 650 m breið ræma og hafa myndast allt að 75 m háir þverhníptir sjávarhamrar.

Flatarmál Surtseyjar var í goslok um 2,7 km² eins og áður segir, en árið 1975 var flatarmálið komið niður í 2,0 km². Árið 2002 mældist flatarmál Surtseyjar 1,4 km² sem er aðeins 52% af mestu stærð árið 1967

Vindrof hefur einnig verið mikið á Surtsey, einkum á gjóskunni fyrstu árin. Stóð þá oft mökkurinn af eynni langt út á sjó. Vindur hefur einnig sorfið af móberginu eftir að það tók að myndast. Engar nákvæmar tölur eru til um vindrofið, en lauslega áætlað gætu 2-10 m hafa skafist ofan af gjósku- og móbergslögunum víða í eystri gígnum. 

Þar sem áður voru eyjarnar Syrtlingur og Jólnir eru nú neðansjávarhæðir. Einnig myndaðist hnúkur, Surtla, á sjávarbotninum norðaustur af Surtsey eins og fyrr er getið. Þessar neðansjávarhæðir hafa lækkað jafnt og þétt af völdum straumrofs. Syrtlingur hvarf í október 1965 en þar er nú minnst 34 m dýpi, Jólnir hvarf í október 1966 og þar er nú 39 m dýpi. Á Surtlu mældist minnst 23 m dýpi í febrúar 1964, en þar er nú minnst 47 m dýpi. Sennilega verður þetta rof einkum í aftakaveðrum. Þessar niðurstöður um straumrofið við Surtsey eru merkilegar því fátt er um sambærileg gögn annars staðar í heiminum.

Reynt hefur verið að spá um framvindu sjávarrofsins í Surtsey á grundvelli gagna um minnkun eyjarinnar 1967-2002. Reiknilíkön benda til þess að móbergskjarni eyjarinnar muni standa einn eftir um 160 ár. Surtsey verður þá girt þverbröttum móbergshömrum og eftir það mun draga mjög úr rofinu. Móbergið í Surtsey er mjög þétt í sér og lítt sprungið líkt og í öðrum úteyjum Vestmannaeyja. Surtsey mun sennilega líkjast Bjarnarey þegar tímar líða. Til samanburðar má nefna, að Bjarnarey er nálægt 5.000-6.000 ára gömul.