Surtseyjareldar

Surtseyjareldar 1963-1967

Surtseyjareldar eru með lengstu eldgosum sem orðið hafa hér á landi síðan sögur hófust. Fyrst varð vart við gosið snemma morguns 14. nóvember 1963, á stað 18 km suðvestur af Heimaey í Vestmannaeyjum. Líklegt er að gosið hafi byrjað nokkrum dögum fyrr á hafsbotninum, þar sem sjávardýpi var þarna um 130 m. Sprengigos einkenndu Surtseyjarelda fyrst í stað, vegna snöggkælingar sjávarins varð heit bergkvikan að gjósku (gosösku). Framleiðslan var mikil, eyja myndaðist þegar 15. nóvember og í lok janúar 1964 var hæð hennar orðin 174 m, eða rúmlega 300 m frá sjávarbotni. Gosið flutti sig um set til norðvesturs 1. febrúar 1964 og þar gaus Surtur yngri (Surtungur) gjósku þar til í byrjun apríl. Á tímabilinu 28. desember 1963 til 6. janúar 1964 varð vart neðansjávargoss 2,5 km austnorðaustur af Surtsey. Þar hlóðst upp á hafsbotni um 100 m hár hryggur, kallaður Surtla, en eyja myndaðist ekki.

Hinn 4. apríl 1964 hófst flæðihraungos í vestari gígnum í Surtsey. Hraunið rann aðallega til suðurs og austurs og myndaði breiðan hraunskjöld sem varð 100 m þykkur við gíginn. Hinn 17. maí 1965 hætti hraungos í þessum gíg. Flatarmál Surtseyjar var þá orðið 2,4 km². Í lok maí 1965 varð vart við gos á hafsbotni 0,6 km austnorðaustur af Surtsey og 28. maí bryddi þar á eyju. Eyjan hlaut nafnið Syrtlingur og gaus sprengigosum fram í byrjun október 1965. Syrtlingur mældist mest rúmlega 70 m á hæð og um 0,15 km² að flatarmáli. Eyjan brotnaði fljótt niður af völdum sjávargangs og 24. október 1965 var hún horfin með öllu.

Önnur lítil eyja, Jólnir, myndaðist við neðansjávargos 0,9 km suðvestur af Surtsey, á jólum 1965. Þessarar eyju svipaði mjög til Syrtlings, hún náði um 70 m hæð og varð allt að 0,3 km² að stærð. Jólnir sást síðast gjósa 10. ágúst 1966 og í lok október sama ár var eyjan horfin sjónum.

Hraungos hófst að nýju 19. ágúst 1966 í Surtsey frá nýjum gígum í eystri gjóskugígnum, þ.e. í Surti gamla. Hraun rann úr þessum gígum til suðausturs og austurs fram í júníbyrjun 1967, en þá lauk Surtseyjareldum. Í desember 1966 – janúar 1967 gaus ennfremur á fimm stöðum í eystri gjóskugígnum, en hraunrennsli var lítið.

Þegar gosum lauk í júní 1967, höfðu þau staðið í rúm þrjú og hálft ár og var Surtsey þá orðin 2,7 km² að flatarmáli. Alls kom upp um 1,1 rúmkílómetri af gosefnum í Surtseyjareldum, um 60-70% af heildarefnismagni var gjóska, en 30-40% hraun.

Surtseyjareldar eru að mörgu leyti sambærilegir þeim gosum sem mynduðu móbergsfjöllin á ísöld. Hefur verið bent á hliðstæður í uppbyggingu Surtseyjar og móbergsstapanna. Það er ljóst nú, að Vestmannaeyjar, nema norðurhluti Heimaeyjar, eru myndaðar á sama hátt og við svipaða sjávarstöðu og Surtsey.

Kjarni Surtseyjar er misgróf gjóska, er varð til við sprengigos. Ofansjávar myndaði gjóskan tvo hálfmánalagaða gígi um miðbik eyjarinnar. Undirstaða hraunanna í Surtsey er að verulegu leyti gerð úr brotabergi, sem myndaðist við snöggkælingu og brimrof þegar hraunin runnu í sjó fram. Alls gaus á átta stöðum í Surtsey og er því ljóst, að víða undir yfirborði eyjarinnar kvíslast berggangar, sem verið hafa aðfærsluæðar gíganna.

Mikill tangi hefur myndast norðan á Surtsey. Þetta er strandmyndun, sem fær efnivið frá hraununum sunnan á eynni. Ríkjandi vindáttir hafa séð til þess að hraunmylsnan berst til norðurs.