LÍF Á LANDI

Smádýr í Surtsey

 

Smádýrin aðvífandi

Fyrsta skordýrið fannst í Surtsey í maí 1964. Í kjölfarið fundust fleiri smádýr af ýmsum tegundum. Það voru sem vænta mátti einkum vængjuð skordýr sem fundust í fyrstunni og höfðu borist á eigin vængjum með hagstæðum vindum. Bæði var um að ræða tegundir sem bárust með norðlægum vindum frá Vestmannaeyjum eða meginlandinu, en einnig tegundir sem slæddust með vindum frá Evrópu. Köngulær fundust einnig fljótlega, en ungviði þeirra svífa auðveldlega um loftin á spunaþráðum.

Margar tegundir skordýra hafa flotið á yfirborði sjávar til Surtseyjar, ýmist með eða án aðstoðar hluta á reki. Dýr hafa fundist á ströndinni, bæði lífs og liðin, eftir að hafa skolast á land. Grastorfur með jarðvegi hafa rekið á land með fjölda smádýra innanborðs og dýr hafa fundist á rekaviði, svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa fuglar borið smádýr til eyjarinnar og ekki hefur tekist að fyrirbyggja að einhver slík hafi borist með mönnum, einkum matföngum.

Smádýrafána þróast

Strax fyrstu árin fundust alls um 170 tegundir skordýra í eynni en það var hvorki meira né minna en um 13% tegunda sem þá höfðu fundist á Íslandi. Þó höfðu fáar tegundanna náð að festa sig í sessi enda skilyrði til landnáms afar harðneskjuleg lengi vel. Þegar Surtsey var heimsótt árið 1981 kom í ljós að allnokkrar tegundir virtust mættar til varanlegrar búsetu og mynduðu þær einfalt en áhugavert samfélag smádýra. Í þessu samfélagi voru dýr sem lifðu á plöntum, önnur á rotnandi efnum og enn önnur voru rándýr. Máfar (svartbakur og silfurmáfur) höfðu þá byrjað að verpa í eynni, í litlum mæli þó og dreift. Þeir mótuðu með hreiðurgerð sinni og aðflutningi lífrænna efna ásamt auknum gróðri undirstöðu þessa samfélags. Þá varð í raun ljóst hvert stefndi. Þegar svo sílamáfur nam land og valdi þann kostinn að verpa í þéttri byggð varð stökkbreyting í gróðurfari og næringarauðgun jarðvegs. Smádýr fylgdu í kjölfarið. Því miður var rannsóknum á þeim þætti ekki fylgt eftir á þessum vendipunkti.

Sumarið 1993 fundust fyrstu ánamaðkarnir í Surtsey í jarðvegssýnum sem tekin voru í máfabyggðinni. Það voru ungviði af tegundinni Lumbricus castaneus. Ánamaðkar hafa ekki fundist þar síðan.

Þegar jarðvegsdýr voru rannsökuð 1995 var gróður orðinn gróskumikill í máfabyggðinni og jarðvegsdýrafánan orðin fjölbreytt. Áður höfðu fundist 16 tegundir stökkmors, en í þessari könnun fundust átta tegundir, þar af sex nýjar fyrir eyna. Það vekur því athygli hversu fáar af fyrri tegundum höfðu náð fótfestu. Hins vegar voru mítlar mun fjölbreyttari en tegundalisti þeirra komst nú í 62 tegundir.

Við rannsóknir sumarið 2002 kom í ljós mikil þáttaskil höfðu orðið í framvindu smádýrafánunnar. Smádýrum var þá safnað í fallgildrur í reitum sem settir höfðu verið út til gróðurmælinga. Auk þess voru smádýr háfuð og tínd. Alls fundust 76 tegundir smádýra að þessu sinni, þar af helmingur sem ekki hafði fundist í eynni fyrr. Þess skal getið að mikið safnaðist af jarðvegsdýrum, sem ekki hafa verið skoðuð og eru þau því ekki með í tölunni.

Alls hafa nú fundist um 300 tegundir smádýra í Surtsey og allt bendir til að um helmingur þeirra hafi þegar náð varanlegri fótfestu. Vængjuð skordýr eru mest áberandi í fánunni, en á meðal hinna ófleygu má nefna sitthvað athyglisvert. Eyjarani Ceutorrhynchus insularis er afar fágæt tegund á heimsvísu, en hann er agnarsmá ranabjalla sem lifir á skarfakáli. Tvær tegundir landsnigla hafa fundist, þ.e. hvannabobbi Vitrina pellucida og sá kuðungslausi Deroceras agreste. Þá hafa 10 tegundir voðköngulóa (Linyphiidae) fundist í Surtsey, þar af komu sex í leitirnar árið 2002.