LÍF Í SJÓ OG FJÖRU
Sjávarbotninn
Á fyrstu æviárum Surtseyjar fundust þar einungis örfáar tegundir botnþörunga og botndýra. Tegundirnar fundust hér og þar, jafnvel á dýpi sem er þeim “óeðlilegt” miðað við þekkta dýptardreifingu þeirra annars staðar við strendur landsins. Fyrstu lífverurnar sem fundust á hörðum botni við Surtsey voru kísilþörungar og grænþörungarnir glithæra, grænslý, slafak og steinslý. Einnig voru þar nokkrir brúnþörungar svo sem fjöruslóg, ægissigð, báruband og purpurahimna. Meðal dýra voru þar þrjár tegundir skelja, gluggaskel, rataskel og kræklingur og tvær tegundir hrúðurkarla, vörtukarl og fjörukarl, rækjutegund og litli trjónukrabbi. Síðan fjölgaði tegundum þörunga og botndýra og samfélög þeirra þróuðust.
Nú eru tvö samfélög lífvera á hörðum botni við Surtsey. Grunnsamfélag á 0 til 15 metra dýpi, sem marinkjarni, stórþari, kerlingarhár, þunnaskegg o.fl. mynda. Djúpsamfélag á 20-30 metra dýpi. Þar eru rauðþörungar ríkjandi, sæeik, rauðkólfur og dreirafjöður. Einkennisdýr í djúpsamfélaginu er kóraldýrið náhönd.