LÍF Í SJÓ OG FJÖRU

Fjaran

Á klettum á austur- suður- og vestur- strönd eyjarinnar hafa ýmsir einærir þörungar síðan numið land. Í fyrstu voru þetta einungis örfáar tegundir með litla þekju, en nú finnast í fjörunni allnokkrar tegundir með heildarþekju 64%. Algengustu tegundirnar eru kísilþörungar og grænslý sem sameiginlega eru 80% gróðurþekjunnar í fjörunni.

Í upphafi var ekki um greinileg samfélög þörunga að ræða, en nú má þar sjá tvö samfélög þörunga. Ofar liggur grænt belti, þar sem einkum eru grænþörungarnir grænslý, slafak og glithæra, og neðar brúnt belti af sambýlis-kísilþörungum, og brúnþörungum, m.a. ægissigð, marinkjarna og rauðþörungunum purpurahimnu og hafdúni. Fjörudýr eru lítt áberandi. Einna helst er þar fjörukarl, sem nemur land neðarlega í fjörunni á hverju vori en hverfur á veturna.