jarðhiti
Jarðhiti
Hitamælingar hafa verið gerðar reglulega í Surtsey með það fyrir augum að fylgjast með áhrifum hitans á herslu gjóskunnar og ákvarða við hvaða hita ýmsar útfellingar myndast bæði í gjósku og hrauni. Hraunið hefur víða haldið hluta af hita sínum, sérstaklega við vestari hraungíginn. Sumarið 1986 mældist gashiti þar enn um 300°C, en síðan hefur kólnað mjög ört.
Í apríl 1968 varð vart við óvenjulegan hita í gjóskunni og mælingar í nóvember 1969 sýndu að vægt jarðhitasvæði hafði myndast um miðbik eyjarinnar. Innan gjóskulaganna hefur hiti ofansjávar mælst mest 100°C (gufuhiti), en síðan 1972 hefur hitinn almennt farið hægt lækkandi.
Árið 1979 var boruð 180 m djúp rannsóknarhola austan til á eynni, skammt frá Pálsbæ. Mestur hiti í borholunni er nú 132°C. Síðan 1980 hefur hitinn í borholunni að jafnaði lækkað um 1°C á ári. Sjá hitamælingar frá 1980 og 2002 á skýringarmynd til samanburðar. Sumarið 2002 fannst lítil laug með 78° heitu vatni við sjávarmál neðan við Vesturbunka.
Hitamælingar frá 1980 og 2002
Jarðhitasvæðið í Surtsey tengist augljóslega hraungígnum og aðfærsluæðum þeirra. Allar líkur benda til þess að berginnskot sem mynduðust í desember 1996 til janúar 1967 valdi jarðhitanum. Sjór virðist eiga greiða leið um gropin jarðlög neðan til í sökkli eyjarinnar. Þegar sjórinn kemst í snertingu við berginnskotin, hitnar hann og heitt vatnið stígur upp. Á vissum stöðum virðist sjórinn vera sjóðandi við sjávarmál, og gufan á síðan greiða leið upp um gjóskuna og hraunin.