um félagið
Þegar sýnt þótti, að Surtsey myndi verða varanleg eyja, komu áhugamenn um rannsóknir sér saman um að stofna nefnd og seinna félag, sem stuðlaði að skipulagi og eflingu rannsókna þar.
Í lögum félagsins stendur, að tilgangur þess skuli vera: Að efla rannsóknir í jarðvísindum og líffræði í sambandi við Surtsey og á Íslandi almennt. Félagið sjálft sér ekki um rannsóknarstörf.
Surtseyjarfélagið hefur gefið út skýrslur með niðurstöðum vísindastarfa, sem þar hafa farið fram. Það hefur tvívegis staðið fyrir byggingu rannsóknarhúss í eynni og einnig hefur félagið ráðist í að láta gera þyrlupall á Surtsey. Surtseyjarfélagið hefur fengið fjárframlög til rekstursins frá ýmsum aðilum og í mörg undanfarin ár verið styrkt af íslenska ríkinu.
Úrvinnsla á rannsóknargögnum hefur farið fram á ýmsum stofnunum, einkum Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Raunvísindastofnun Háskólans, auk margra erlendra stofnana. Landmælingar Íslands tóku í upphafi allar loftmyndir af Surtsey, en hin síðari ár hafa Loftmyndir ehf. séð um þessar myndatökur.
Surtseyjarfélagið hefur haft aðsetur sitt hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og er félagið stofnuninni þakklátt fyrir þá greiðasemi sem hún hefur sýnt félaginu.
Formaður stjórnar Surtseyjarfélagsins er Hallgrímur Jónasson, fyrrum forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Aðrir í stjórn eru Olga Kolbrún Vilmundardóttir (varaformaður), Lovísa Ásbjörnsdóttir (ritari), Bjarni Diðrik Sigurðsson (gjaldkeri), Magnús Tumi Guðmundsson (meðstjórnandi), Viggó Þór Marteinsson (meðstjórnandi) og Vilhjálmur Smári Þorvaldsson (meðstjórnandi).
Varamenn í stjórn: Starri Heiðmarsson, Lilja Gunnarsdóttir, Sigurður Sveinn Jónsson og Birgir Vilhelm Óskarsson.