Útfellingar
Útfellingar
Í Surtsey myndaðist mikið af marglitum útfellingum við hraungígana, bæði meðan á gosum stóð og eins fyrstu árin á eftir. Þessar útfellingar voru rannsakaðar á sínum tíma en eru nú flestar horfnar af völdum veðrunar. Í eynni er fjöldi hella, einkum hraunrásarhella, en þeir eru lítt kannaðir. Í sumum hellanna má enn finna mikið af útfellingum steinda, sem hafa myndast úr heitum lofttegundum á bilinu 30°-300°C. Steinsalt, thenardít, gifs, kalsít og ópall eru þar algengar tegundir. Alls hafa fundist 18 tegundir útfellinga á hrauni og í hraunhellum í Surtsey. Sumar þeirra eru afar sjaldgæfar og hafa ekki fundist annars staðar á landinu. Tvær steindanna eru líklega nýjar heimssteindir.