09.06.2020. Surtseyjarfélagið hefur gefið út ritið Surtsey Research 14. Í því eru 14 vísindagreinar eftir 29 höfunda frá sex þjóðlöndum. Surtsey Research birtir greinar á ensku um rannsóknir í Surtsey og tengd efni frá öðrum eldfjallasvæðum. Liðin eru 55 ár frá því fyrsta ritið kom út. Framan af voru ritin prentuð en síðustu tvö rit eru aðeins gefin út á rafrænu formi. Meðal efnis í nýja heftinu eru þrjár greinar í jarðfræði sem fjalla um fyrstu niðurstöður úr hinu viðamikla djúpborunarverkefni sem unnið var að í Surtsey sumarið 2017. Jafnframt er grein um rof og setflutninga og birt nýtt landlíkan af eynni sem byggir á myndatökum með dróna. Í líffræði birtast fimm greinar sem fjalla meðal annars um landnám hveldýra á grunnsævi við Surtsey, erfðafræði fjöruarfa, jarðvegsmyndun og framvindu gróðurs í eynni og áhrif sjófugla og sela þar á. Þá birtist í ritinu grein um veðurfar í Surtsey en sjálfvirk veðurstöð var sett þar upp árið 2009. Ennfremur er í grein fjallað um örnefni í eynni og rakin myndun þeirra.
Ritið og einstakar greinar þess má nálgast hér á vef Surtseyjarfélagsins og einnig eldri útgáfur í ritröðinni.